Monday, February 24, 2014

Með dass af söknuði og heimþrá


 Jafnvel þó Mexico sé búið að sökkva sér inn í hjartað mitt get ég ekki falið það hversu sárt ég sakna míns heimalands. Hver hefði haldið að þetta gæti orðið svona ólýsanlega frábær upplifun, en á sama tíma svo andlega átakanleg. Suma daga gæti ég ómögulega þurrkað af mér brosið og fæturnir snerta varla jörðina af hamingju, en stundum er ég ekki langt frá því að bóka flug heim á mínútunni. Að vera svona langt í burtu frá öllu því sem maður er vanur getur svo sannarlega kennt manni eitt og annað um sjálfan sig.


 Þessi hópur stúlkna er brot af þeim sem búa hér í Ayuda y Solidaridad. Það sem fólk ímyndar sér þegar það hugsar um hjálparstarf á heimilum eins og þessu er líklega hversu göfugt það er að bjóða fram hjálp sína til þeirra sem þurfa á því að halda. Hér fæ ég ekki að finna fyrir því. Ég fæ ekki að finna fyrir að hjálp mín sé metin eða sé einhvers virði. Mér er sagt að bíða þegar ég spyr hvernig ég geti hjálpað, og litin illu auga þegar ég er ekki að hjálpa til. Auðvitað er gaman að kynnast stelpunum og leika við þær, en fullorðna fólkið virðist ekki skilja að ég er tilbúin til að gera það sem þau biðja mig um ef þau bara myndu segja mér hvað það er sem ég get gert til að aðstoða. Ekki myndi skemma fyrir ef þau kæmu betur fram við okkur sjálfboðaliðana, en vegna þess að við drögum okkur í hlé þegar enginn vill þiggja aðstoðina sem við bjóðum, þá erum við litnar hornauga. 


 Julia mín er búin að reynast mér svo ótrúlega vel og er ein ástæðan fyrir því að ég er ekki flúin heim. Við gætum ekki verið ólíkari, en náum samt svo vel saman. Er endalaust þakklát fyrir að hafa hana hjá mér. Ich liebe dich mija <3

 Biðst afsökunar á niðurdrepandi inngangi. Nú að öðrum léttari málefnum. Þegar maður er niðurdreginn eða líður illa í sálinni er ekkert eins gott og að skella sér á góða æfingu til að fá endorfínið flæðandi um líkamann. Með það í huga skráði ég mig í líkamsræktarstöð sem er í 10min göngufjarlægð frá staðnum þar sem ég bý. Fyrir nokkrum vikum setti ég inn mynd af æfingasal sem er hér í byggingunni en hann hefur ekki reynst nóg með sín ryðguðu lóð og ótengd brennslutæki. Á nýja staðnum fæ ég aðstoð frá þjálfara þegar ég þarf á að halda, hef aðgang að öllum lokuðum tímum og get teygt á úti í sólinni. Ekki slæmt það.





Enginn leiður í Bonga gym.

 Til gamans má geta að ég fann loksins CrossFit stöð eftir nokkrar tilraunir og tók mjög skemmtilega æfingu með þeim, en þar sem þeir ætluðu að rukka mig 100.000kr fyrir 4 og hálfan mánuð þurfti ég að krumpa þá hugmynd saman og henda henni í óendurvinnanlegt.
 
 Í síðustu viku fór mín ástkæra Ulli aftur heim til sín, búin að njóta sinna 6 mánaða hér í Mexico. Það var yndislegt að fá að kynnast henni og vonandi get ég heimsótt hana til Austurríkis við tækifæri. Ókosturinn við að kynnast nýju fólki í nýju landi er sá að sú stund rennur alltaf upp að maður þarf að kveðja. Seinustu helgi var kveðjuparty fyrir hana heima hjá vini okkar sem var nýfluttur inn í sína eigin 40fm íbúð. Ég gisti þar ásamt 15 öðrum sem hefðu annars ekki komist heil heim. Voða kosy.

Kveðjustund. Hér má augljóslega sjá hvor var að koma og hvor er að fara.

Bugaðar af sorg átum við í okkur hamingjuna á ný á þessum fína veitingastað. 

 Tíminn líður hraðar með hverjum degi og nú eru liðnar 2 vikur sem ég á erfitt með að rifja upp. Ég gerði samt eflaust eitthvað skemmtilegt. Það sem situr fastast í minninu er laugardagurinn en þá fór ég með Lauru og bróður hennar (og fullt af öðru fólki) til Toluca sem er í klst fjarlægð frá Mexico City. Þangað fórum við til að skoða eina staðinn í Mexico þar sem má finna snjó, en hæsti tindur er næstum 4700m yfir sjávarmáli. Já, það var skítkalt. 

Ekki leiðinlegt að ferðast með þessu liði.

Þarna misstu sig allir. Pínu fyndið.

Letingjarnir sem nenntu ekki að labba gátu leigt sér hesta.

Ekki sjón að sjá suma hestana hvað þeir voru ótrúlega vannærðir.

Ég á steini. Hér má sjá snjóinn í bakgrunn.

Svo varð þetta reyndar sjúklega flott. Þetta er óvirkt eldfjall, alveg göngunnar virði.

Hópurinn sem við fórum með. Alveg meiriháttar hvað Mexicanar eru yndislegt fólk.

Ég og Laura litla. 

Þessar hressar. 

Ekki datt mér í hug að ég myndi hafa not fyrir vettlingana mína þegar mamma tróð þeim með í töskuna. Takk mamma.


Þessar plöntur vaxa bara í eldfjöllum. Allir tóku sér stykki til að skreyta húsið sitt með, en þetta minnti mig helst á illgresi.


4210m yfir sjávarmáli. Loftið var vægast sagt þunnt.

En fallegt var það.

Franzie að kvíða göngunni til baka yfir hæðina.

 Á leiðinni heim stoppuðum við á veitingastað í vegkantinum til að smakka bestu tacos og quesadillas sem ég hef fengið. Ég gleymdi símanum í bílnum og gat ómögulega staðið upp til að ná í hann, svo því miður engar myndir þaðan. Þetta var frábær dagur og við vorum öll uppgefin. Samt sem áður var haldið heim til bróður Lauru til að detta í það, en ég flýtti mér bara heim, skaðbrunnin í framan.

Nú tekur við nýr dagur og vonandi ný ævintýri. Vona bara að ég verði ekki rænd í kvöld.


1 comment:

  1. Klukkan okkar er 9:16, Bassi og brói sofa báðir. Það er vindur, kalt og við hér heima værum alveg til í að vera í Mehico núna......Svona er þetta nú bara, störf fólks eru mismikils metin en það skiptir miklu máli að meta sjálfan sig rétt. Þú átt nógu margar áskoranir eftir í lífinu, trúðu mér og þótt andinn kringum sjálfboðaliðastörf í Mexikó sé kannski á þennan veg sem þú lýsir þá má ekki gleyma öllum þeim stöðum í heiminum þar sem hlutunum er öfugt farið - þar sem "ódýrt" vinnuafl er pískað áfram meðan það stendur í fæturna. Þú veist sjálf hvað þú getur og ef aðrir hafa ekki burði til að sjá það og nýta, þá verður það bara að vera þeirra vandamál......Njóttu daganna!

    ReplyDelete