Monday, April 7, 2014

Breyttir tímar


 Loksins gefst mér tími til að setjast niður og blogga í rólegheitunum. Seinustu dagar hafa verið vægast sagt undarlegir og nú undir lok helgarinnar er ég loksins að draga andann.
 Þetta byrjaði allt á föstudaginn fyrir hálfum mánuði þegar forstöðukonan í vinnunni kallaði á mig að tala við sig. Með henni voru Julia vinkona mín, önnur stelpa sem er líka sjálfboðaliði og svo forstöðukonan frá staðnum sem sú stelpa vinnur á. Þær voru allar mjög alvarlegar á svip og ég varð strax smá stressuð því ég vissi ekki hvað var í gangi. Næst var því skellt framan í mig að nú þyrfti ég að skipta við stelpuna um vinnustað, því hún var orðin veik af álagi. Eðlilega spurði ég spurninga um hvernig hlutunum yrði háttað, þ.e. vinnustundir, útivistartími, aðstaða þar sem ég myndi búa o.þ.h., en vegna þess að ég svaraði ekki strax játandi að það væri ekkert mál að skipta um vinnu þá varð forstöðukonan reið og bandaði mér bara í burtu. Sagði svo að ef við vildum ekki hjálpa þá ættum við bara ekkert að vera að því yfirleitt. Ég átti ekki til orð.
 Það sem gerðist næst var að grybban hringdi í samtökin mín hér úti og sagði að ef ég vildi ekki skipta yfir í hitt húsið, aka. þrælabúðir satans, þá ætti ég vinsamlegast að pakka saman og fara. Ég fékk hinsvegar ekki að frétta það fyrr en eftir helgina, sem ég eyddi í þessu fína húsi í Cuernavaca:

 
 Hún Julia vinkona mín er nefnilega svo klikkuð að hún þáði boð frá fertugum manni sem hún kynntist á couchsurfing um sundlaugarparty í sumarhúsi vinar hans. Ekkert spúkí eða neitt þannig. Ég hefði aldrei samþykkt nema afþví vinur hennar fór með okkur líka, ásamt tveimur öðrum stelpum. Enduðum á því að njóta helgarinnar bara mjög vel með þessum furðulegu nýju vinum. 

Útsýnið frá húsinu. Ekki slæmt.

Sýnist ekki vanta drykkinn hjá neinum.

Fínt í lauginni. Enginn fór útí nema þau.

Svo kom sólin okkar góða.

Beðið eftir að okkur yrði hleypt inn í rútuna. Bílstjórinn ekkert þreyttur á að heyra "en núna??" á 2 min fresti.

Hann setti bara upp sparibrosið og DJaði alla leiðina heim.

 Mánudaginn eftir fékk ég svo símtal frá samtökunum mínum með þeim upplýsingum að ég þyrfti að skipta um vinnu og þar af leiðandi finna annan stað til að búa á. Ég tók því að sjálfsögðu með reisn og grenjaði bara í klukkutíma. Svo þurfti ég að segja Juliu fréttirnar og þá fór hún líka að grenja og allt í volli. Svo þurrkuðum við tárin, ég pakkaði oní tösku og var flutt út eftir 4 daga. Það gerist jú ekkert á stundinni hér í Mexico. 

Áður en ég flutti út fórum við út að leika.

Fengum okkur sushi.

Fórum í smá verslunarleiðangur.

Í eina H&M í Mexico City.

Til þess ferðuðumst við hingað

Í fyrsta flokks mexikönskum strætó.

 Seinustu viku hef ég búið hjá Lauru, með mömmu hennar og bróður, eða sama stað og ég bjó á fyrstu þrjár vikurnar mínar í Mexico. Hér verð ég fram á föstudag en þá byrjar páskafríið og við vinkonurnar ætlum í smá ferðalag um landið. Ævintýrið hefst í Oaxaca og þaðan höfum við lauslega planað ferðina að Quintana Roo. Þetta verða allavega 2 skrautlegar vikur með nóg af nýjum ævintýrum og sveittum rútuferðum. 

 Þegar allt kemur til alls er ég lifandi fegin að hafa verið "rekin". Það var ekki gott á milli mín og yfirmannanna og ég er þúsund sinnum ánægðari á nýja staðnum. Nú vinn ég á nokkurs konar dagheimili fyrir börn sem koma frá fjölskyldum með alls konar vandamál. Þau koma til okkar eftir skóla og fá að borða, bursta svo tennurnar og eftir matinn hjálpum við þeim með heimanámið. Á þessum stað eru aðeins 40-50 krakkar á aldrinum 4-14 ára sem er nokkuð annað en 90 brjálaðar stelpur með alvarleg hegðunarvandamál. 
 Ég mæti kl 11 og hjálpa til í eldhúsinu við að undirbúa máltíðina fyrir krakkana. Er að læra hvernig á að búa til fullt af mexikönskum réttum, held það sé best að mamma byrji að undirbúa sig að borða mat með bragði!!

Þessi sýnir mér allt og í staðinn kenni ég henni bæði ensku og íslensku.

Matsalurinn krakkanna.

Ég bjó til flan!

Svo er þessi voffalingur með okkur alla daga sem er alls ekki verra :)

 Á laugardaginn bauð vinur minn mér að koma og hlusta á hljómsveitinni sem pabbi hans spilar með. Þeir spiluðu nokkur lög til að kynna tónleika sem verða haldnir á næstu helgi til styrktar börnum með krabbamein. Aðgangseyrir er 70 pesóar eða 25cm af hárinu þínu. Eftir tíunda skiptið sem hann spurði mig hvenær hann ætti að ná í skærin var mér hætt að lítast á blikuna. Enduðum þó á að eiga góðan dag með pabba hans og bandinu á litlum veitingastað eftir tónleikana. 

Verið að klippa lokk úr hárinu á trommaranum.

Í hita helgarinnar pöntuðum við auðvitað 12 lítra af bjór. En ekki hvað.

Sunnudaginn fórum við saman að kaupa fyrsta rútumiðann fyrir ferðalagið. 4 ferðir fram og til baka í metroinu, þá er ekkert að gera en setjast niður og taka upp myndavélina.


 Ætla að enda þetta á namminu sem ég bjó til í vinnunni í dag. Súkkulaðihúðaðir sykurpúðar með valhnetukurli. Geri aðrir betur.

 Næsta blogg verður væntanlega ekki fyrr en eftir tæpan mánuð þegar ég kem til baka úr ferðalaginu. Þeas. ef mér verður ekki rænt einhversstaðar á leiðinni. Þangað til næst!

Djók, sorry mamma.