Monday, February 3, 2014

Þriðja vikan


 Getur það verið að ég sé bara búin að vera hér í þrjár vikur? Finnst frekar eins og það séu þrír mánuðir. Á þessum þremur vikum er ég búin að upplifa ýmislegt, hitta mikið af nýju fólki og sjá mikið af nýjum hlutum - bæði jákvæðum og neikvæðum. Í borg þar sem búa um 9.000.000 manns þarf Íslendingurinn að passa sig vel. Það býðst ekki alltaf að stoppa til að taka mynd á iPhone-inn sinn því í fyrsta lagi ertu bara troðinn undir í þvögunni ef þú hættir að labba, og/eða einhver rekur augun í verðmæti og hnuplar því af þér um leið og þú lítur í hina áttina. Þá á þetta sérstaklega við í metro-inu þar sem mig hefur dauðlangað að taka myndir, til að sýna ykkur hversu ólýsanlega stappað það getur verið, en hreinlega ekki þorað.

Hér er í staðinn ein mjög friðsæl mynd frá yfirborðinu. Eins og glöggir taka eflaust eftir er myndin tekin kl. 21:49, líklega í miðri viku, sem þýðir að annatíminn er liðinn.

 Hef einnig komist að því að það sem ég heyrði um sér vagna fyrir konur og börn reyndist satt. Fyrstu 2 vagnarnir í hverri lest eru ætlaðir okkur, mér til mikillar lukku.

Vont sushi

 Um daginn fór ég með spænskukennaranum og Emil á sushi stað sem jafnaðist engan veginn á við Sushi Samba. Sushi-ið var gamalt og búið að fara marga hringi á svona sushi-train. Í kvöld fór ég svo á annan sushi stað sem var mun betri. Sá var jafnvel betri en Sushi samba. Sushi.

Þetta fyrirbæri kallast Churros og er það feitasta sem ég hef smakkað (á eftir öllu hinu feita sem þeir borða hér). Fötin mín lyktuðu eins og djúpsteikingapottur í nokkra daga eftir að hafa setið inni á þessum stað.

 Eftir vonda sushiið og feitt churros fengum við okkur nokkra kalda til að sprengja kaloríukvótann. Ég hitti afskaplega indælan heimilislausan mann sem bjó til þessa rós handa mér úr kreppappír á meðan ég fylgdist hugfangin með.


Hér sést rósin betur með gíröffunum hennar Lauru. Sem er 21 árs.

 Það sem stendur uppúr þessa vikuna er það að ég flutti dótið mitt frá Lauru og í verkefnið mitt þar sem ég bý núna. Heimilið, sem kallast Ayuda y Solidaridad, hýsir u.þ.b. 90 stelpur á aldrinum 2-18 ára. Hér mun ég hjálpa til við allskonar störf sem snúa að stelpunum ásamt því að leika við þær sem ég kvarta ekki undan. Heimilið er á þremur hæðum og stelpunum er skipt niður á hæðirnar eftir aldri. Ég mun aðstoða á fyrstu hæðinni þar sem búa þær yngstu, 2-5 ára.

 Ljúfur drengur að nafni Julio (en ekki hvað) hjálpaði mér með töskurnar upp og niður óteljandi stiga í metro-inu þar sem við þurftum að skipta þrisvar um línu. Ferðalagið tók okkur um eina og hálfa klukkustund, með stoppi til að gæða okkur á dýrindis quesadillas og svala þorstanum.

Julio duglegur að hjálpa mér. Hann bar stóru töskuna.

Ég deili íbúð með tveimur stelpum frá Þýskalandi og Austurríki, og svefnherbergi með síðarnefndri. Hún fer reyndar heim eftir nokkra daga svo ég fæ sennilega herbergið útaf fyrir mig það sem eftir er dvalarinnar.


Herbergið mitt. Fyrir utan það að undirstaðan undir rúmið er steypt, og þar af leiðandi grjóthart að sofa í því, líkar mér ótrúlega vel við mig hér. Kveðja, prinsessan á bauninni.

Einnig, ef einhvern langar að senda mér póst, bréf, pakka, nú eða eitthvað gott íslenskt nammi (ég frétti að þeir hefðu nýlega sameinað rís og draum) þá er þetta heimilisfangið mitt. 
Með fyrirfram þökk.

 Síðan ég kom hef ég ekki gert mikið af því sem myndi kallast vinna, en í þessari viku verður vonandi meira að gera. Ástandið er búið að vera frekar slæmt þar sem fannst lús í flest öllum stelpunum sem búa hér og þurfti að klippa hárið á nánast öllum. Margar voru klipptar svo stutt að þær líta út eins og strákar.


Þetta litla ljós er Valentina. Henni er alveg sama þó hún sé með stutt hár, hún brosir samt út að eyrum.

Eitt af því góða við þetta verkefni er að því fylgir þessi salur. Við megum fara hvenær sem við viljum, en þar sem lóðin eru úr járni og gólfið flísalagt er ég hrædd um að ég þurfi að leita mér að almennilegri CrossFit stöð. Málið er í vinnslu.

Einnig fylgir þessi súper svala sundlaug. Mínar vonir um tansession á bakkanum hurfu þó útum gluggann þegar mér var sagt að við þurftum sundhettu og overall suit til að mega vera á svæðinu.

Þessi verslunarkjarni er í 10min fjarlægð frá staðnum þar sem ég bý. Tók þessa mynd fyrsta daginn sem ég fór þangað, en þá hafði ég ekki tíma til að skoða. Fór svo daginn eftir og 98% búðanna lokuð. Ekkert rafmagn í rúllustigunum.

 Í dag var einhver hátíðisdagur sem ég veit ekki enn útá hvað gekk, en ég nýtti daginn og fór á risastóran og stórhættulegan útimarkað. Á þessum markaði fæst allt á milli himins og jarðar, allt frá skóm, fötum og skartgripum að dópi, byssum og innyflum. Þetta síðasta er ég þó ekki alveg 100% viss um. En þar sem þessi stórhættulegi markaður er svona hættulegur mátti ég ekki taka með mér veski né símann svo ég hef engar myndir þaðan. 
Þið gætuð ekki ímyndað ykkur hversu stór markaðurinn var og hversu mikið fólk var þarna. Fyrir okkur hvítingjana gildir einnig reglan "aðeins í fylgd með fullorðnum" og þá er átt við innfæddum karlmanni. Ég gat ekki mikið skoðað þar sem Christopher og pabbi hans hlupu með mig og vinkonu mína í gegnum markaðinn, aðeins til að finna það sem pabbinn þurfti, og svo út. Eins gott að þau fari með mig á hinn (ekki jafn hættulega) markaðinn eins og þau lofuðu.

 Eftir þessa ágætu, en tilgangslausu, ferð á markaðinn fórum við heim, ég og Julia stelpan frá Þýskalandi sem býr með mér. Við hefðum þurft að skipta úr metro yfir í strætó en þar sem Julia vildi spara sér 50kr strætóferð, og labba í staðinn restina af leiðinni, vorum við eltar af hóp unglingsstráka og þurftum að hlaupa heim.


 Ég hlakka mikið til að skoða allt það sem Mexíkóborg hefur uppá að bjóða, þó ég sé hrædd um að ég hafi hreinlega ekki tímann í að klára það allt. Á sama tíma óska ég þess að tíminn líði hratt svo ég verði fljótt aftur í faðmi þeirra sem ég elska. 


Að lokum læt ég fylgja mynd af ristabrauðinu mínu.

When in Mexico.

3 comments:

  1. Vá ég er eiginlega bara hissa á að þú þorir að fara í metro án fylgdar karlmanns ! :) Ég þorði því allavega ekki. En markaðurinn, hvar var hann? Þessi hættulegi? Oh minningarnar um DF eru að koma á yfirborðið.. Farðu nú varlega samt ! kveðja, Hrönn Þorkels.

    ReplyDelete
  2. Ég hugsa að þú gætir alveg púllað sundhettu og overalls á bakkanum! =) Annars að þá get ég ekki ýmindað mér hversu gefandi þetta starf hlýtur að vera og það kemur mér ekkert að óvart að þú hafir farið þessa ferð því þú ert alltaf með svo hlýtt hjarta =) Farðu varlega en skemmtu þér samt vel =)

    ReplyDelete
  3. Metroið er nú ekki alveg svo slæmt þó maður þurfi stundum að taka tilhlaup inn í vagninn til að komast fyrir! En markaðurinn var í Tipito, held að hann dragi nafn sitt eftir því. Hvenær, og hvað varst þú aftur lengi hér? :)

    Haha takk Orri minn, ég held ég bíði samt frekar eftir sumrinu :D það eru litlu stelpurnar sem eru að bræða hjartað mitt, þær eru svo yndislegar. Vona það sé allt gott að frétta að heiman!

    ReplyDelete