Thursday, May 22, 2014

Páskafrí - seinni partur


 Hlýt að vera að smitast af Mexikönunum sem eru aldrei á réttum tíma með eitt eða neitt. En hvað um það, betra er seint en aldrei. Hér kemur seinni parturinn af páskafríinu mínu sem mér finnst hafa verið fyrir óralöngu síðan. Fyrri parturinn endaði á því að ég var að skríða út úr Guatemala sem þýðir að hér hefst ævintýrið á ströndinni, nánar tiltekið á Playa del Carmen.

Þ.e.a.s. eftir 18klst ferðalag í þessari mjög svo óhuggulegu rútu þar sem ekki var hægt að loka gluggum né kveikja ljós þegar sólin settist. Hún fylltist af fólki á næstu stoppistöð. og fyrir aftan mig settist maður sem fannst voða gaman að dúndra með hnénu í sætisbakið mitt í hvert skipti sem ég dirfðist að leggja mig upp að því.

Þurfti kannski ekki að nefna það en að sjálfsögðu var framrúðan brotin í klessu.

 Eftir þessa 18 tíma hjá rútuferðum satans lentum við loksins í paradís. Fundum leiðina heim til Frank sem hýsti okkur í þrjár nætur, vorum ekki lengi að koma okkur allar fyrir í rúminu hans og steinsofna kl 7 um morguninn.

Það var þversum eða ekkert.

 Hvíldumst sjúklega vel og vorum komnar út aftur á hádegi. Frank tók okkur með sér í skoðunarferð um bæinn og það var alveg eins og rútuferðir satans hefðu bara keyrt í gegnum eitthvað svarthol og yfir í annað land. Meirihluti fólksins voru túristar, þá aðallega Bandaríkjamenn, allir Mexikanarnir reyndu að tala við okkur á ensku og fólk var í alvörunni í formi, en ekki með tacobumbu eins og allir í höfuðborginni. Mér leið svo sannarlega vel því þangað vorum við komnar til að slappa af. Vildi óska að ég ætti mynd af viðbrögðunum mínum þegar ég sá ströndina í fyrsta skiptið. 

<3

Ást við fyrstu sýn.
 
Frank að leika sér í hvíta sandinum.

 Daginn eftir fórum við til Tulum sem er aðeins sunnar og leigðum þar hjól, bjuggum til samlokur og skoðuðum rústir.

Isi og Maria að missa sig úr spenningi.

Þessi hafði ekki sest upp á hjól í mörg ár og hræðslan skein úr andlitinu.

Sumir eru bara ekki alveg með fulla fimm.

Samlokugerð fyrir utan supermarkaðinn. 

Fáum ekki leið á þessum rústum.

Og svo sannarlega ekki þessum grænbláa sjó og hvíta sandi.

Soumi og naggarnir fimm.

 Þá var kominn tími til að tryggja okkur rútumiðana heim aftur. Við fórum á rútustöðina og komumst að því að það voru bara fjórir miðar eftir á þeim degi sem við höfðum hugsað okkur að fara heim. Auðvitað skellti ég þessu bara upp í kæruleysi og ákvað að vera eftir, enda ekki á hverjum degi sem maður getur stungið tásunum í Karíbahafið. Auk þess var flugmiðinn heim nokkrum dögum seinna jafnvel ódýrari en rútumiðinn og ekki erfitt að velja á milli, klukkustundar flugferð eða sólarhringur í rútu.

 Við vinkonurnar ákváðum að eyða síðasta deginum á Playa del Carmen í skemmtigarði sem heitir Xcaret. Þangað fórum við snemma morguns og komum til baka seint um kvöldið. Gerðum og sáum fullt af skemmtilegu dóti.






Showið um kvöldið.

 Eftir langan dag fórum við og tókum við saman dótið okkar hjá Frank og héldum til Puerto Morelos. Þar voru hinar stelpurnar búnar að koma sér fyrir hjá Rasta sem hýsti okkur næstu daga. Vorum svo heppnar að fá að koma með honum í vinnuna, en hann vinnur í Selvática sem er adrenalín garður með fullt af extreme dóti. Gat þó ekki tekið mikið af myndum því síminn varð eftir í læstum skáp.




Húkka far heim.

 Næsti dagur var sá seinasti fyrir stelpurnar. Við fórum til Isla Mujeres sem er eyja rétt fyrir utan Cancún. Sannkölluð paradís, hvítari sandur en ég hef séð á ævinni og sjórinn alveg tær. 




 Gátum aðeins eytt mjög stuttum tíma á þessum fallega stað því stelpurnar þurftu að ná rútunni seinnipartinn. Ég kvaddi þær og hélt með dótið mitt til Cancún en þar gisti ég restina af tímanum hjá strákum sem unnu einnig í adrenalín garðinum. 

Þessir vitleysingar fóru með mig á karaoke bar og stigu að sjálfsögðu á svið.

Svo fórum við í klifurhúsið.

Og þegar þeir fóru í vinnuna skellti sólarelskandinn sér auðvitað á ströndina.

 Þá var þetta framlengda frí á enda og tími til að halda aftur til borgarinnar. Verð að segja að ég var ekki alveg tilbúin að yfirgefa ströndina þar sem borgin er eiginlega alveg að fara með mig. Hef komist að því að Íslendingurinn í mér á erfitt með að höndla mannfjöldann, erilinn og vegalengdirnar á milli staða til svona langs tíma. Sem betur fer er ekki mikið eftir.

Flúvélin sem skilaði mér til baka.

 Það stóð til að eftir ferðina myndi Laura finna fyrir mig annan stað til að búa á þar sem ég hef engan stað fyrir dótið mitt heima hjá henni en þar sem ekkert hefur gerst, og lítur ekki út fyrir að hún ætli að gera neitt í málunum, mun ég líklega búa hjá henni í ferðatöskunni minni það sem eftir er ferðarinnar. Ég sætti mig við það þar sem stutt er í vinnuna mína og aðeins um 8 vikur eftir af tímanum mínum hér í Mexico.

 Einnig vegna þess að ég pantaði mér samstundis aðra ferð á ströndina, þá að sjálfsögðu með flugi. Þann 17. Júní verð ég komin aftur með tærnar á kaf í sandinn og buslandi í Karíbahafinu. 

 Nema í þetta skiptið gleymi ég ekki sólarvörninni.

Kær kveðja frá Mexico :)

Monday, May 12, 2014

Páskafrí - fyrri partur


 Nú eru liðnar tvær vikur frá því ég kom heim úr ferðalaginu mínu um Mexico og enn hef ég ekki lagt í að blogga um það. Hef frá svo ótrúlega mörgu að segja að það væri sennilega efni í heila bók. Þessvegna verð ég að stikla á stóru og velja vel úr öllum þeim 1000 myndum sem ég tók á þessum 18 dögum.

 Seint að kvöldi þann 11. apríl hófst það sem átti eftir að verða mitt besta páskafrí hingað til. Ég lagði af stað frá Mexico city með fjórum stelpum frá Þýskalandi sem vinna hér einnig sem sjálfboðaliðar. Fyrst lá leiðin til Oaxaca borgarinnar en þangað komum við snemma um morguninn eftir 7 klst rútuferð. Eyddum aðeins einum degi í borginni sem var algjör synd því þar er ótal margt að sjá og maturinn sá besti í landinu. Um kvöldið tók við önnur enn lengri rútuferð til Puerto Escondido sem er ótrúlega fallegur bær við strönd Kyrrahafsins. Þangað mættum við kl 7 að morgni, tuskulegar, illa lyktandi og enn þreyttari en áður. Steig út úr rútunni eftir heila nótt í nístingskaldri loftkælingu beint út í heitasta loftslag sem ég hef fundið á ævinni. Allir taxabílstjórarnir voru ólmir í að ná sér í aur og gjömmuðu hver ofaní annan: "Taxi? Taxi, taxi?? Taxi?!?" Runnu þó á þá tvær grímur þegar þeir áttuðu sig á því að við vorum 5 saman með 5 risavaxna bakpoka. Samt sem áður tróðum við okkur allar saman í einn bíl. Þannig rúllar maður bara í Mexico.
 Í framhaldi af því er tilvalið að segja frá hversu innilega sniðugar við erum að spara pening því við erum jú bara fátækir sjálfboðaliðar í leit að smá ævintýri. Við notfærðum okkur vefsíðuna couchsurfing.com til að finna fría gistingu út allt ferðalagið. (Fyrir þá sem ekki vita hvað Couchsurfing er mæli ég eindregið með að kynna sér vefsíðuna og skella í einn prófíl því þetta er lang besta leiðin fyrir þá sem vilja ferðast um heiminn.) Það var hægara sagt en gert að finna götuna þar sem fyrsti gestgjafinn okkar bjó. Engin skilti, engin húsnúmer. Bara hvítur sandur í hliðargötunum í stað malbiks eða malar, lausir hundar útum allt og börn úti að leika á nærbuxunum. 

Þarna voru hundarnir á eftir okkur og börnin sennilega hlaupin í felur, dauðskelkuð við að sjá fjórar hvítar stelpur og eina þeldökka þrammandi með farangur á við heila hersveit.

 Eftir mikla leit fundum við loksins réttu götuna og þá var bara að finna húsið. Þar sem gestgjafinn svaraði ekki í símann hófum við að spyrja fólk sem var úti við hvort það vissi hvar "Peter" ætti heima. Gengum hús úr húsi en engin kannaðist við nafnið. Það var mjög eðlilegt því maðurinn hét Victor. Hefði líklega sparað okkur dýrmætar mínútur ef sumir hefðu áttað sig á því að gefa upp sitt eigið nafn til að byrja með. Að lokum römbuðum við þó á rétt hús og til dyra kom gestgjafinn með rauðhlaupin augu. Í fyrstu leist mér ekki alveg á blikuna en hann kynnti sig, bauð okkur velkomnar og sýndi okkur hvar við gætum hvílt okkur. Ég hélt hann væri að grínast þegar hann benti á tjald í garðinum sem lá á brennheitum sandi í ómenguðu sólarljósinu. Það reyndist ekki vera djók.

Mynd tekin eftir ágætis blund í tjaldinu. Betri er sveitt hvíld en engin hvíld.

 Allar vorum við ólmar í að komast á ströndina, enda uþb fjórir mánuðir síðan við höfðum séð til sjávar. Eftir blundinn skoluðum við af okkur ferðalagssvitann og röltum á ströndina sem var ekki nema 5 mínútna göngufjarlægð frá húsinu. Ég á það til að brenna á öxlunum og bringunni svo ég makaði þar á mig sólarvörn. Pældi ekkert í bakhlutanum og sofnaði auðvitað flatmaga í sólinni í 3 klst. Þetta var útkoman.

Eins gott ég bar vel á bringuna.

 Næsta degi var eytt heima í aloe vera baði á meðan stelpurnar skoðuðu sig um. Á þeim þriðja neitaði ég að sitja hjá og haltraði með þeim út. Áttum góðan dag, stelpurnar skelltu sér á banana boat og ég fékk að fljóta með kapteininum. 

Langbesta sætið til að horfa á þegar hann hvolfdi þeim í sjóinn.

Kyrrahafið og fegurðin.

 Þarna eyddi ég þremur dögum, kynntist Victori og Önnu frá Canada, sá tunglmyrkva, svaf á gólfi, brann í drasl, borðaði Tlayuda, þurfti að baða mig með vatnsfötu úti í garði, horfði á sólarlag á ströndinni og var fyrsti gestur til að snæða á glænýju hosteli. Ég kvarta ekki.

Ást og friður - amor y paz.

 Næsti áfangastaður var Tapachula, Chiapas. Komst að því að 13 klst í rútu gera engum manni gott. Það var þó alls ekki komið að því að slaka á því frá Tapachula fórum við beint að landamærum Guatemala. Taxabílstjórinn skutlaði okkur eins nálægt og hann mátti og gaf okkur svo góð ráð eins og "ekki tala við nokkurn mann á leiðinni að landamærunum" og "hunsið þá sem bjóðast til að bera farangurinn ykkar". Ég var ekkert mikið hrædd. Allt gekk þó vel og við örkuðum inn í Guatemala eins og ekkert væri. 

Julia ekki að taka bakpokalífið alvarlega.

 Seinna komumst við að því að við fórum inn í landið á kolvitlausum stað og við tók heill dagur af rútuferðum í fjórum mismunandi rútum, hangandi utaní fjallshlíðum Guatemala á milljón km hraða. Þær litu þó meira og minna allar eins út að innan.

Líf og fjör.

 Eftir heilan dag í þessu partýi lentum við í Huehuetenango, borg sem hafði álíka mikið uppá að bjóða og Vík í Mýrdal. Þar höfðum við samt sem áður fundið gestgjafa og gengum rakleiðis í næsta síma til að láta vita af okkur. Hann kom strax og sótti okkur, hentum töskunun upp í bíl vinar hans og svo var mér troðið í skottið. Okkur til mikillar óhamingju keyrðu þeir beint aftur á pöbbinn sem þeir höfðu komið af. Við vorum dauðuppgefnar eftir 24 klst ferðalag án þess að hvílast né nærast almennilega og vildum helst af öllu komast í hús til að leggja okkur. Þegar hann fattaði það fór hann með okkur heim til sín þar sem við fengum heilt herbergi útaf fyrir okkur til að sofa í. Næstu fjórir dagar fóru meira og minna í vaskinn því við gátum ekki gert neitt af hlutunum sem okkur langaði að gera. Vorum svo óheppnar að vera akkúrat í Huehuetenango á allra heilögustu dögum páskanna og allar samgöngur nánast lamaðar. Staðirnir sem við vildum heimsækja, eins og Tikal, Lago de Atitlán og La Antigua, voru of langt í burtu til að fara í dagsferð og allir gististaðir í kring fullbókaðir. Þrátt fyrir það gerðum við það besta úr öllu og skemmtum okkur ágætlega.

Koma svo, það er pláss fyrir nokkra í viðbót.

Þeir eru litaglaðir þarna í Guate.


Rústir, endalausar rústir.

Í miðbænum.

Guatemaltecos í fríi.

 Svo var loksins komið að því að halda aftur til Mexico. Félaginn með okkur á myndinni hér einni að ofan var svo indæll að skutla okkur að landamærunum þar sem við misstum af einu rútunni á páskadag frá Huehuetenango. Kvöddum Guatemala og héldum til San Cristóbal, Chiapas. Þangað komum við seint að kvöldi og leituðum strax að rútu til Quintana Roo, en engar ferðir fyrr en daginn eftir. Þá fundum við okkur lítið sætt hostel þar sem við borguðum 1000kr á mann fyrir tvö herbergi með sér rúmi fyrir hverja og eina. Þvílíkur lúxus sem það var! Gátum loksins baðað okkur allar, því sökum vatnsskorts í Guatemala þurftum við að skipta okkur niður á daga. Það eru ekki allir jafn heppnir og við Íslendingar að hafa sundlaug í hverju bæjarfélagi.


 Ferðin var hálfnuð og besti parturinn eftir. Framhald á morgun, þarf að flýta mér út - þetta sushi borðar sig ekki sjálft.



Monday, April 7, 2014

Breyttir tímar


 Loksins gefst mér tími til að setjast niður og blogga í rólegheitunum. Seinustu dagar hafa verið vægast sagt undarlegir og nú undir lok helgarinnar er ég loksins að draga andann.
 Þetta byrjaði allt á föstudaginn fyrir hálfum mánuði þegar forstöðukonan í vinnunni kallaði á mig að tala við sig. Með henni voru Julia vinkona mín, önnur stelpa sem er líka sjálfboðaliði og svo forstöðukonan frá staðnum sem sú stelpa vinnur á. Þær voru allar mjög alvarlegar á svip og ég varð strax smá stressuð því ég vissi ekki hvað var í gangi. Næst var því skellt framan í mig að nú þyrfti ég að skipta við stelpuna um vinnustað, því hún var orðin veik af álagi. Eðlilega spurði ég spurninga um hvernig hlutunum yrði háttað, þ.e. vinnustundir, útivistartími, aðstaða þar sem ég myndi búa o.þ.h., en vegna þess að ég svaraði ekki strax játandi að það væri ekkert mál að skipta um vinnu þá varð forstöðukonan reið og bandaði mér bara í burtu. Sagði svo að ef við vildum ekki hjálpa þá ættum við bara ekkert að vera að því yfirleitt. Ég átti ekki til orð.
 Það sem gerðist næst var að grybban hringdi í samtökin mín hér úti og sagði að ef ég vildi ekki skipta yfir í hitt húsið, aka. þrælabúðir satans, þá ætti ég vinsamlegast að pakka saman og fara. Ég fékk hinsvegar ekki að frétta það fyrr en eftir helgina, sem ég eyddi í þessu fína húsi í Cuernavaca:

 
 Hún Julia vinkona mín er nefnilega svo klikkuð að hún þáði boð frá fertugum manni sem hún kynntist á couchsurfing um sundlaugarparty í sumarhúsi vinar hans. Ekkert spúkí eða neitt þannig. Ég hefði aldrei samþykkt nema afþví vinur hennar fór með okkur líka, ásamt tveimur öðrum stelpum. Enduðum á því að njóta helgarinnar bara mjög vel með þessum furðulegu nýju vinum. 

Útsýnið frá húsinu. Ekki slæmt.

Sýnist ekki vanta drykkinn hjá neinum.

Fínt í lauginni. Enginn fór útí nema þau.

Svo kom sólin okkar góða.

Beðið eftir að okkur yrði hleypt inn í rútuna. Bílstjórinn ekkert þreyttur á að heyra "en núna??" á 2 min fresti.

Hann setti bara upp sparibrosið og DJaði alla leiðina heim.

 Mánudaginn eftir fékk ég svo símtal frá samtökunum mínum með þeim upplýsingum að ég þyrfti að skipta um vinnu og þar af leiðandi finna annan stað til að búa á. Ég tók því að sjálfsögðu með reisn og grenjaði bara í klukkutíma. Svo þurfti ég að segja Juliu fréttirnar og þá fór hún líka að grenja og allt í volli. Svo þurrkuðum við tárin, ég pakkaði oní tösku og var flutt út eftir 4 daga. Það gerist jú ekkert á stundinni hér í Mexico. 

Áður en ég flutti út fórum við út að leika.

Fengum okkur sushi.

Fórum í smá verslunarleiðangur.

Í eina H&M í Mexico City.

Til þess ferðuðumst við hingað

Í fyrsta flokks mexikönskum strætó.

 Seinustu viku hef ég búið hjá Lauru, með mömmu hennar og bróður, eða sama stað og ég bjó á fyrstu þrjár vikurnar mínar í Mexico. Hér verð ég fram á föstudag en þá byrjar páskafríið og við vinkonurnar ætlum í smá ferðalag um landið. Ævintýrið hefst í Oaxaca og þaðan höfum við lauslega planað ferðina að Quintana Roo. Þetta verða allavega 2 skrautlegar vikur með nóg af nýjum ævintýrum og sveittum rútuferðum. 

 Þegar allt kemur til alls er ég lifandi fegin að hafa verið "rekin". Það var ekki gott á milli mín og yfirmannanna og ég er þúsund sinnum ánægðari á nýja staðnum. Nú vinn ég á nokkurs konar dagheimili fyrir börn sem koma frá fjölskyldum með alls konar vandamál. Þau koma til okkar eftir skóla og fá að borða, bursta svo tennurnar og eftir matinn hjálpum við þeim með heimanámið. Á þessum stað eru aðeins 40-50 krakkar á aldrinum 4-14 ára sem er nokkuð annað en 90 brjálaðar stelpur með alvarleg hegðunarvandamál. 
 Ég mæti kl 11 og hjálpa til í eldhúsinu við að undirbúa máltíðina fyrir krakkana. Er að læra hvernig á að búa til fullt af mexikönskum réttum, held það sé best að mamma byrji að undirbúa sig að borða mat með bragði!!

Þessi sýnir mér allt og í staðinn kenni ég henni bæði ensku og íslensku.

Matsalurinn krakkanna.

Ég bjó til flan!

Svo er þessi voffalingur með okkur alla daga sem er alls ekki verra :)

 Á laugardaginn bauð vinur minn mér að koma og hlusta á hljómsveitinni sem pabbi hans spilar með. Þeir spiluðu nokkur lög til að kynna tónleika sem verða haldnir á næstu helgi til styrktar börnum með krabbamein. Aðgangseyrir er 70 pesóar eða 25cm af hárinu þínu. Eftir tíunda skiptið sem hann spurði mig hvenær hann ætti að ná í skærin var mér hætt að lítast á blikuna. Enduðum þó á að eiga góðan dag með pabba hans og bandinu á litlum veitingastað eftir tónleikana. 

Verið að klippa lokk úr hárinu á trommaranum.

Í hita helgarinnar pöntuðum við auðvitað 12 lítra af bjór. En ekki hvað.

Sunnudaginn fórum við saman að kaupa fyrsta rútumiðann fyrir ferðalagið. 4 ferðir fram og til baka í metroinu, þá er ekkert að gera en setjast niður og taka upp myndavélina.


 Ætla að enda þetta á namminu sem ég bjó til í vinnunni í dag. Súkkulaðihúðaðir sykurpúðar með valhnetukurli. Geri aðrir betur.

 Næsta blogg verður væntanlega ekki fyrr en eftir tæpan mánuð þegar ég kem til baka úr ferðalaginu. Þeas. ef mér verður ekki rænt einhversstaðar á leiðinni. Þangað til næst!

Djók, sorry mamma.