Tuesday, February 11, 2014

Gæti alveg vanist þessu lífi


 Það er allt að smella saman hjá mér. Hefur tekið sinn tíma, en ætli það sé ekki eðlilegt að vera lengi að aðlagast þegar menningin er svona allt öðruvísi en maður er vanur. Nú er liðinn næstum mánuður síðan ég yfirgaf mitt ástkæra Ísland og þessi síðastliðna vika búin að líða hraðast af öllum. Loksins hef ég fengið ákveðin verkefni í vinnunni, en dagurinn minn er þannig upp settur að ég vakna kl. 05:30 á morgnana til að undirbúa litlu stelpurnar fyrir skólann. Svo hef ég frítíma til kl. 14:00 en þá sæki ég tvær stelpur í skólann. Stundum fer ég með rútubílstjóranum okkar að sækja fleiri stelpur, því vegna þess að hann er karlmaður má hann ekki fara einn að sækja þær. Kl. 15:00 er svo matur og þá borðum við með stelpunum og eftir það hjálpum við þeim með heimanámið. Vinnudagurinn er svo búinn eftir kvöldmatartímann hjá yngstu stelpunum sem er yfirleitt eins og að vera staddur í miðju kríuvarpi. 

Já ég tók með mér 900gr konfektkassa

 Í vikunni fékk ég massífa heimþrá og reif upp konfektkassann sem var ætlaður fjölskyldunni sem vildi svo ekki fá mig. Mjög hentugt því Juliu fannst marsipanmolarnir bestir. Mér leið betur. Maður má samt vara sig á sætindunum því mexikanskur matur er nú þegar svo feitur að hann fer beint á rassinn eins og má sjá á eftirfarandi mynd.

Hún er líka eflaust með tvær pizzur í þessum poka.

 Það tekur mig 10-15 mínútur að komast í miðbæinn sem þýðir að hann er ótrúlega nálægt. Fyrir marga tekur það hátt í klukkustund að komast til vinnu og það telst mjög eðlilegt. Mér líkar mjög vel við miðbæðinn og hann verður oftast fyrir valinu þegar ákveða á stað til að hittast, t.d. þegar ég hitti spænskukennarann minn er miklu skemmtilegra að finna kaffihúsi í miðbænum en að hanga inni í heimahúsi. Aðal staðurinn til að hittast heitir Bellas Artes, en það er listasafn ásamt því að geyma tónlistasali sem gefa Hörpunni okkar ekkert eftir.

Bellas Artes er stóra hvíta húsið með gula þakinu.

Vinsæll staður til að hittast er undir köngulónni. Hef ekki hætt mér þangað ennþá.

Þessi turn er næst hæsta bygging í Mexico. Þarna efst er veitingastaður og bar en þar var ég í gær að sötra bjór. Það var alveg í lagi.

 Ulli frá Austurríki sem býr með mér er nú að ferðast um Yucatán skagann að njóta sinna seinustu daga hér í Mexico. Í staðinn höfum við fengið til okkar stelpu frá Rúmeníu sem heitir Anca. Hún kom bara í gær, er með strákaklippingu og kabbalah armband. Er ennþá pínu smeyk við hana en hún virkar samt allt í lagi. Hún mun búa með okkur Juliu i verkefninu.

Tekið af þakinu okkar, sundlaugin og leiksvæði stelpnanna. Þarna innst hægra megin eru stofunar þar sem þær vinna heimaverkefnin. Ég á nú þegar góðar minningar úr gula kastalanum.

Matsalurinn þar sem við borðum baunir og tortillur alla daga.

 Helgin var mjög góð, ég og Julia misstum af partýi á föstudaginn því við þurftum að vinna lengur, en það var allt í lagi því ég heyrði að flestir hefðu ælt og sofnað á gólfinu. Í staðinn vöknuðum við ferskar á laugardagin, ég horfði á Eurovision og svo fórum við á markað (hötum ekki þessa markaði) þar sem við keyptum fullt af fínu dóti. Ég keypti mér ekta fína mexicanska peysu, styttu af beinagrind, smá handa Bergrós sem hún fær ekki að vita hvað er, og svo keyptum við okkur saman mangóbita í glasi. Rétt náðum að stoppa manninn af áður en hann drekkti því í chili.

Julia verður ekki ánægð ef hun veit að ég setti þessa mynd af henni á netið, en hún er í alvörunni mjög sæt.

 Sunnudagurinn var svo einstaklega skemmtilegur en þá fór ég með Diego, sem er sjálfboðaliði fyrir samtökin hér úti, á safnið hennar Fridu Kahlo. Húsið sem hún bjó í hér í Mexico hefur verið breytt í safn, en allir upprunalegu innanstokksmunirnir eru varðveittir þar. 

Þetta var röðin fyrir utan húsið, sem kallast Casa azúl, eða "Bláa húsið"

 Þar sem við vorum ekki alveg að nenna þessari röð ákváðum við að vera sniðug og hoppuðum upp í rútu sem tók okkur fyrst á safnið hans Diego Rivera. Hann var kallinn hennar Fridu sem fór mjög illa með hana. Svo þegar við komum til baka máttum við bara smeygja okkur fram fyrir röðina inní húsið hennar Fridu. 1000kall á mann fyrir bæði söfnin og rútuferð, ekki slæmt það.


Diego safnaði fullt af svona dóti.


Svona var loftið á hans safni.

Þetta er studioið hans þar sem hann vann.

Þessi heitir líka Diego, samt ekki sá sami þó hann kunni örugglega að teikna líka.

Þetta er svo hinn eini sanni. Hann var ekki sá fríðasti í bransanum, enda var honum gjarnan líkt við körtu.

Hann þurfti stórt hús undir alla steinana sína.

Hér höfum við svo Fridu vinkonu mína.

Þessa mynd málaði hún rétt áður en hún dó greyið, búin að þurfa að þola mikið hnjask bæði eftir eiginmanninn og rútuna sem klessti á hana þegar hún var 15 ára.
Á einni melónunni stendur Viva la vida, en þaðan fengu Coldplay nafnið á lagið sitt.


Hér málaði Frida í frítíma sínum.

Þessi gríma var sett á hana eftir að hún dó. Ekkert lítið creepy.



 Eftir þessi tvö söfn (og þetta alltof langa myndablogg) var ferðinni haldið á markað þar sem pabbi hans Diego á bás og selur alls konar fisk. Þar fékk ég að smakka allskonar nýtt eins og ferskan túnfisk, lax með einhverri spes sósu, eitthvað annað sem ég veit ekki einu sinni hvað var, og svo saup ég lifandi fisk úr skel. Þessu var auðvitað öllu skolað niður með ekta mexikönskum bjór. 

Jább, þetta setti ég uppí mig.

Ekki þetta samt.

Diego að skera laxinn afar fagmannlega.

Svo fylgdi þessi bomba.

 Gærdagurinn var svo ekkert síðri. Hann byrjaði rólega, hitti Claudiu spænskukennarann minn í hádeginu og við settumst inn á kaffihús. Eftir að ég var búin að bíða eftir henni í klukkutíma, en það er klassískt fyrir mexikanann. Fljótlega fékk hún símtal frá manni sem hún þekkir í gegnum háskólann, en hann er að syngja í óperunni og var um það bil að stíga á svið í Bellas Artes (sem ég sagði frá hér að ofan) þar sem verið var að sýna Töfraflautuna. Hann bauð okkur að koma á sýninguna og þar sem við vorum 2 mínútur í burtu hoppuðum við auðvitað yfir. Fengum bestu sætin sem hefðu kostað okkur 6500 á mann, en borguðum ekki krónu.



Gaf Eldborg ekkert eftir.


Ótrúlega flott sýning!

 Eftir sýninguna gengum við báðar gapandi út, þetta var svo stórkostlegt. Endalaust hæfileikaríkt fólk, raddirnar óaðfinnanlegar og hljómsveitastjórinn alveg meiriháttar þó mætti halda hann hafi verið nýskriðinn úr háskóla. Þegar út var komið rákumst við á hóp af fólki sem stóð og fylgdist með tveimur litlum guttum rífast á rapplensku. Held að það kallist að battla. Annar þeirra, skuggalega líkur Justin Bieber, var áberandi betri en þetta varð samt ekki skemmtilegt fyrr en löggan kom. Þá stóð annar stærri strákur upp og náði að tala lögguna út í horn. Svo byrjaði hann að rappa og við Claudia settumst niður og fylgdumst með fólki flykkjast að til að fylgjast með. Ég skildi ekki allt sem hann hafði að segja en nóg til að fatta að hann var að setja útá allt sem heitir yfirvald hér í Mexico. 

Pollarnir.

Löggan mætt á svæðið.

Yfirvaldsdissarinn.

 Þetta var vel gert hjá strákunum og mjög áhugavert. Sértstaklega þegar þeir skelltu því framan í lögguna að það sem þeir væru að gera væri líka list, þegar löggan ætlaði að reka þá burt af torgi listamiðstöðvarinnar. 
 Ég endaði svo daginn á nokkrum glóðvolgum tacos og eyddi kvöldinu í góðra vina hópi á hæsta punkti Mexico City.




Ps. Ég kem eflaust heim með eina af þessum:





Hafið það gott heima !! <3

2 comments:

  1. Flottir dagar hjá þér úti, engill! Farðu bara varlega......

    ReplyDelete