Monday, May 12, 2014

Páskafrí - fyrri partur


 Nú eru liðnar tvær vikur frá því ég kom heim úr ferðalaginu mínu um Mexico og enn hef ég ekki lagt í að blogga um það. Hef frá svo ótrúlega mörgu að segja að það væri sennilega efni í heila bók. Þessvegna verð ég að stikla á stóru og velja vel úr öllum þeim 1000 myndum sem ég tók á þessum 18 dögum.

 Seint að kvöldi þann 11. apríl hófst það sem átti eftir að verða mitt besta páskafrí hingað til. Ég lagði af stað frá Mexico city með fjórum stelpum frá Þýskalandi sem vinna hér einnig sem sjálfboðaliðar. Fyrst lá leiðin til Oaxaca borgarinnar en þangað komum við snemma um morguninn eftir 7 klst rútuferð. Eyddum aðeins einum degi í borginni sem var algjör synd því þar er ótal margt að sjá og maturinn sá besti í landinu. Um kvöldið tók við önnur enn lengri rútuferð til Puerto Escondido sem er ótrúlega fallegur bær við strönd Kyrrahafsins. Þangað mættum við kl 7 að morgni, tuskulegar, illa lyktandi og enn þreyttari en áður. Steig út úr rútunni eftir heila nótt í nístingskaldri loftkælingu beint út í heitasta loftslag sem ég hef fundið á ævinni. Allir taxabílstjórarnir voru ólmir í að ná sér í aur og gjömmuðu hver ofaní annan: "Taxi? Taxi, taxi?? Taxi?!?" Runnu þó á þá tvær grímur þegar þeir áttuðu sig á því að við vorum 5 saman með 5 risavaxna bakpoka. Samt sem áður tróðum við okkur allar saman í einn bíl. Þannig rúllar maður bara í Mexico.
 Í framhaldi af því er tilvalið að segja frá hversu innilega sniðugar við erum að spara pening því við erum jú bara fátækir sjálfboðaliðar í leit að smá ævintýri. Við notfærðum okkur vefsíðuna couchsurfing.com til að finna fría gistingu út allt ferðalagið. (Fyrir þá sem ekki vita hvað Couchsurfing er mæli ég eindregið með að kynna sér vefsíðuna og skella í einn prófíl því þetta er lang besta leiðin fyrir þá sem vilja ferðast um heiminn.) Það var hægara sagt en gert að finna götuna þar sem fyrsti gestgjafinn okkar bjó. Engin skilti, engin húsnúmer. Bara hvítur sandur í hliðargötunum í stað malbiks eða malar, lausir hundar útum allt og börn úti að leika á nærbuxunum. 

Þarna voru hundarnir á eftir okkur og börnin sennilega hlaupin í felur, dauðskelkuð við að sjá fjórar hvítar stelpur og eina þeldökka þrammandi með farangur á við heila hersveit.

 Eftir mikla leit fundum við loksins réttu götuna og þá var bara að finna húsið. Þar sem gestgjafinn svaraði ekki í símann hófum við að spyrja fólk sem var úti við hvort það vissi hvar "Peter" ætti heima. Gengum hús úr húsi en engin kannaðist við nafnið. Það var mjög eðlilegt því maðurinn hét Victor. Hefði líklega sparað okkur dýrmætar mínútur ef sumir hefðu áttað sig á því að gefa upp sitt eigið nafn til að byrja með. Að lokum römbuðum við þó á rétt hús og til dyra kom gestgjafinn með rauðhlaupin augu. Í fyrstu leist mér ekki alveg á blikuna en hann kynnti sig, bauð okkur velkomnar og sýndi okkur hvar við gætum hvílt okkur. Ég hélt hann væri að grínast þegar hann benti á tjald í garðinum sem lá á brennheitum sandi í ómenguðu sólarljósinu. Það reyndist ekki vera djók.

Mynd tekin eftir ágætis blund í tjaldinu. Betri er sveitt hvíld en engin hvíld.

 Allar vorum við ólmar í að komast á ströndina, enda uþb fjórir mánuðir síðan við höfðum séð til sjávar. Eftir blundinn skoluðum við af okkur ferðalagssvitann og röltum á ströndina sem var ekki nema 5 mínútna göngufjarlægð frá húsinu. Ég á það til að brenna á öxlunum og bringunni svo ég makaði þar á mig sólarvörn. Pældi ekkert í bakhlutanum og sofnaði auðvitað flatmaga í sólinni í 3 klst. Þetta var útkoman.

Eins gott ég bar vel á bringuna.

 Næsta degi var eytt heima í aloe vera baði á meðan stelpurnar skoðuðu sig um. Á þeim þriðja neitaði ég að sitja hjá og haltraði með þeim út. Áttum góðan dag, stelpurnar skelltu sér á banana boat og ég fékk að fljóta með kapteininum. 

Langbesta sætið til að horfa á þegar hann hvolfdi þeim í sjóinn.

Kyrrahafið og fegurðin.

 Þarna eyddi ég þremur dögum, kynntist Victori og Önnu frá Canada, sá tunglmyrkva, svaf á gólfi, brann í drasl, borðaði Tlayuda, þurfti að baða mig með vatnsfötu úti í garði, horfði á sólarlag á ströndinni og var fyrsti gestur til að snæða á glænýju hosteli. Ég kvarta ekki.

Ást og friður - amor y paz.

 Næsti áfangastaður var Tapachula, Chiapas. Komst að því að 13 klst í rútu gera engum manni gott. Það var þó alls ekki komið að því að slaka á því frá Tapachula fórum við beint að landamærum Guatemala. Taxabílstjórinn skutlaði okkur eins nálægt og hann mátti og gaf okkur svo góð ráð eins og "ekki tala við nokkurn mann á leiðinni að landamærunum" og "hunsið þá sem bjóðast til að bera farangurinn ykkar". Ég var ekkert mikið hrædd. Allt gekk þó vel og við örkuðum inn í Guatemala eins og ekkert væri. 

Julia ekki að taka bakpokalífið alvarlega.

 Seinna komumst við að því að við fórum inn í landið á kolvitlausum stað og við tók heill dagur af rútuferðum í fjórum mismunandi rútum, hangandi utaní fjallshlíðum Guatemala á milljón km hraða. Þær litu þó meira og minna allar eins út að innan.

Líf og fjör.

 Eftir heilan dag í þessu partýi lentum við í Huehuetenango, borg sem hafði álíka mikið uppá að bjóða og Vík í Mýrdal. Þar höfðum við samt sem áður fundið gestgjafa og gengum rakleiðis í næsta síma til að láta vita af okkur. Hann kom strax og sótti okkur, hentum töskunun upp í bíl vinar hans og svo var mér troðið í skottið. Okkur til mikillar óhamingju keyrðu þeir beint aftur á pöbbinn sem þeir höfðu komið af. Við vorum dauðuppgefnar eftir 24 klst ferðalag án þess að hvílast né nærast almennilega og vildum helst af öllu komast í hús til að leggja okkur. Þegar hann fattaði það fór hann með okkur heim til sín þar sem við fengum heilt herbergi útaf fyrir okkur til að sofa í. Næstu fjórir dagar fóru meira og minna í vaskinn því við gátum ekki gert neitt af hlutunum sem okkur langaði að gera. Vorum svo óheppnar að vera akkúrat í Huehuetenango á allra heilögustu dögum páskanna og allar samgöngur nánast lamaðar. Staðirnir sem við vildum heimsækja, eins og Tikal, Lago de Atitlán og La Antigua, voru of langt í burtu til að fara í dagsferð og allir gististaðir í kring fullbókaðir. Þrátt fyrir það gerðum við það besta úr öllu og skemmtum okkur ágætlega.

Koma svo, það er pláss fyrir nokkra í viðbót.

Þeir eru litaglaðir þarna í Guate.


Rústir, endalausar rústir.

Í miðbænum.

Guatemaltecos í fríi.

 Svo var loksins komið að því að halda aftur til Mexico. Félaginn með okkur á myndinni hér einni að ofan var svo indæll að skutla okkur að landamærunum þar sem við misstum af einu rútunni á páskadag frá Huehuetenango. Kvöddum Guatemala og héldum til San Cristóbal, Chiapas. Þangað komum við seint að kvöldi og leituðum strax að rútu til Quintana Roo, en engar ferðir fyrr en daginn eftir. Þá fundum við okkur lítið sætt hostel þar sem við borguðum 1000kr á mann fyrir tvö herbergi með sér rúmi fyrir hverja og eina. Þvílíkur lúxus sem það var! Gátum loksins baðað okkur allar, því sökum vatnsskorts í Guatemala þurftum við að skipta okkur niður á daga. Það eru ekki allir jafn heppnir og við Íslendingar að hafa sundlaug í hverju bæjarfélagi.


 Ferðin var hálfnuð og besti parturinn eftir. Framhald á morgun, þarf að flýta mér út - þetta sushi borðar sig ekki sjálft.



No comments:

Post a Comment