Áætlun mín um bloggskrif með viku millibili hefur ekki alveg gengið upp. Kannski vegna þess að hlutir sem mér fannst áður frásögu færandi eru nú orðnir daglegt brauð. Í dag eru liðnir 2 mánuðir og 3 dagar síðan ég lenti í Mexico. Á erfitt með að trúa að þriðjungur ævintýrisins sé búinn þegar mér finnst ég rétt vera að komast upp á lagið með allt. Neita því þó ekki að margt hefur gerst á þessum mánuðum. Hér ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að segja frá síðastliðnum 3 vikum svo þið fáið nokkurn veginn tilfinningu fyrir þessu undarlega lífi.
Hér í Mexico City er stærsti háskóli í Mexico sem kallast UNAM. Þegar ég spyr hversu margir stundi nám við skólann er hlegið að mér því það er eiginlega ómögulegt að vita. Hann er heil borg. Heil borg af námsmönnum frá öllum heimshornum. Byggingarnar eru svo sannarlega stórfenglegar, en ég hafði ekki tækifæri til að skoða nema part af þeim þegar ég fór með spænskukennaranum mínum í könnunarleiðangur. Við höfðum bara einn dag.
Veitingastaður á háskólasvæðinu þar sem við snæddum dýrindis máltíð á gjafaverði fyrir fátæka námsmenn.
Anca frá Rúmenínu (sambýliskona mín) og maestra Claudia, sem er meira vinkona okkar en spænskukennari.
Þessi grjóthleðsla myndar snák sem liggur í gegnum allt háskólasvæðið. Uppi á honum situr fólk oft og lærir eða bara spjallar í sólinni. Smá næs.
Eitt af því sem mér finnst gaman að gera er að eyða tíma með öllu því ágæta fólki sem ég hef kynnst hér. Við höfum komið upp þeirri hefð að halda sushi date með 1-2 vikna millibili. Það er staður í miðbænum með besta sushi sem ég hef smakkað, og ekki leiðinlegt að það er 2 fyrir 1 mánudaga til miðvikudags. Ljúffeng og ódýr flóttaleið frá baunum og hrísgrjónum.
34 klst í næsta áætlaða sushi date.
Seinasta föstudag hvers mánaðar er frí í skólunum hjá öllum stelpunum. Þá er yfirleitt einhver uppákoma hér í húsinu og í febrúar kom hópur af trommuköllum til að skemmta okkur. Þeir spiluðu mjög flott og stelpurnar voru yfir sig hrifnar. Sérstaklega af einum sem var með dredda niðrá bak.
Eftir þennan dag fórum við vinkonurnar út á skrallið. Drógum með okkur fjórar stelpur frá Þýskalandi og áttum ljúft kvöld á annars drepleiðinlegum skemmtistað. Þar kynntumst við nokkrum vinum sem var mjög hentugt fyrir mig þar sem vinkona mín er orðin ósamræðuhæf eftr þrjá drykki. Hún drakk fjóra.
Þar sem reglur hússins banna okkur að koma heim eftir kl. 11 á kvöldin þurftum við að gera aðrar ráðstafanir. Fengum leyfi til að gista hjá vinkonu okkar sem bjó ekki langt frá skemmtistaðnum. Hún gaf okkur leiðbeiningar um hvernig ætti að komast þangað, en þar sem við gátum ómögulega fundið taxabílstjóra sem skildi hvar gatan hennar var (eðlilega er enginn þeirra með GPS) og hún svaraði ekki í símann, vorum við í djúpum s***. Til bjargar komu herramennirnir sem við kynntumst inni á staðnum og skutluðu okkur heim. Það var meira en að segja það því það tók þá klukkutíma að finna götuna okkar og við með hrjótandi yfirfarþega. Komumst þó heilar heim, allir glaðir og eignuðumst nýja vini í þokkabót.
Daginn eftir fann ég bókasafnið hennar Fríðu. Disney aðdáendur sjáið hvað ég meina. Dýrið hvergi nálægt.
Þetta er plantan Maguey. Hún er meðal annars notuð til að framleiða mezcal og tequila, en úr henni má einnig búa til drykk sem kallast "pulque". Mér bauðst að fara og smakka þetta fræga pulque sem var víst voða vinsælt meðal aztecanna. Við tókum rútu út úr borginni og löbbuðum ágæta vegalengd í rigningu og skítakulda til að komast á staðinn. Seinna komst ég að því að þetta er selt á hverju horni í miðbænum.
Helgina eftir fór ég að skoða pýramídana í Teotihuacán. Google hjálpar fyrir þá sem þekkja ekki til. Ótrúlega fallegur staður þar sem ljúft var að eyða deginum.
Svo endaði þetta náttúrulega allt í ruglinu með Mariachis, sombreros og tilheyrandi kokteilunum.
Nú er að hefjast ný vinnuvika og önnur viðburðarík helgi á enda. Henni eyddi ég á stað sem heitir Tolantongo, en þar eru nokkurs konar hellar með jarðhituðu vatni og náttúran er ólýsanlega falleg. 5 klst ferðalag með 25 manna eldhressum hóp af fólki. Því miður gat ég ekki tekið eins margar myndir og ég vildi sökum þess að síminn minn hefði sennilega eyðilagst í vatninu. Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða fleiri myndir er hægt að googla Grutas de Tolantongo.
Mjög vel heppnuð helgi, enginn týndist eða var rændur þó nokkrir hafi endað frekar krambúleraðir eftir að hafa farið ógætilega í vatninu. Í öllum tilfellum kom gleðidjús við sögu. Ég slapp ekki.
Gleðinni linnir samt ekki þó heim sé komið og við höldum áfram að skemmta okkur. Í gærkvöldi skruppum við út að skoða okkur um og vitleysingurinn hún Soumaija gerði þetta fyrir 500kall:
Pikkuðum þessa indælu drengi upp af götunni og buðum þeim í bjór. Þeim fannst það ekki leiðinlegt.
Þannig endaði áttunda vika mín í Mexico. Ég held áfram að lifa og njóta. Vona að allir heima geri slíkt hið sama. Það er ekkert djók að tíminn flýgur áfram og þessvegna langar mig bara að segja í fullri alvöru, grípið tækifærin! Til þess bjóðast þau.
Nú er kominn tími til að hefja þennan dag, opna gluggann og vona að heita vatnið sé komið í lag.
Hér í Höfðaborg er ausandi rigning og hrollkalt (þ.e. úti) Arnar var að koma úr helgarferð í sumarbústað í Borgarfirði og Bergrós undirbýr forsetaframboð (miðað við kostnað og umfang). Bassi er latur í rigningunni og nennir ekki út. Sama gildir um mig. Vertu dugleg eins og alltaf......
ReplyDeleteTakk pabbi minn, ég reyni það! Vona að tíminn líði hratt, ég er farin að sakna ykkar..
Delete