Sunday, January 26, 2014

Afslöppun og meiri afslöppun


 Nú eru næstum 2 vikur liðnar og ég er enn ekki byrjuð að vinna! Er samt ekki mikið að kvarta. Búin að vinna nógu mikið heima á Íslandi til að komast hingað svo það er fint að fá smá frí. Eins og er bý ég enn hjá Lauru og Héctor, systkinunum sem sóttu mig á flugvöllinn, og mömmu þeirra. Hér býr einnig stelpa frá Þýskalandi sem er líka sjálfboðaliði.

Laura með Chito hundinn okkar. Geltir og urrar á alla nema okkur.

 Síðastliðin vika hefur verið mjög róleg og liðið hægt. Á mánudaginn fórum við á flugvöllinn til að sækja einn undarlegasta náunga sem ég hef hitt. Japanskan strák sem hamingjan skein af, jafnvel þótt hann hefði týnt næstum öllum farangri sínum í flugi frá Marokkó tveimur vikum áður. Hann hafði verið á ferðinni um allan heim í hálft ár og Mexico ver hans endastöð. Hann talaði takmarkaða ensku og sama og enga spænsku en arkaði samt af stað til að leita að töskunum. Þegar við loksins skildum hvað hann var að segja gátum við hjálpað honum, því enginn á flugvellinum skildi orð af því sem hann sagði. Að lokum komumst við að því að töskurnar voru hinumegin á hnettinum, en hann er vonandi búinn að fá þær núna. Hann gisti á sófanum hjá okkur eina nótt, svo endalaust þakklátur fyrir það litla sem við gátum boðið honum. Daginn eftir skutluðum við honum á rútustöðina en þaðan tók hann rútu til bæjar þar sem hann mun halda áfram að dreifa gleðinni næstu 4 vikurnar. 

Hér er furðufuglinn með Héctor rétt áður en við kvöddum hann. 

 Á miðvikudaginn byrjaði spænskukennslan sem allir sjálfboðaliðarnir fá. Við erum samt bara tvö ný í Mexico City, hinir sjálfboðaliðarnir búa í öðrum bæjum, svo spænskutímarnir eru frekar furðulegir. 

Emil og kennarinn okkar, Claudia. Emil kann bara nokkur orð í spænsku svo Claudia þarf að kenna okkur í sitthvoru lagi, en samt á sama tíma. Undarlegt fyrirkomulag.

 Í miðri viku fór ég með Héctor á mjög skemmtilegan markað í miðbænum, fullt af ekta mexikönsku handgerðu dóti.


Hér smíða þeir gítara.





Svo enduðum við daginn á nokkrum glóðvolgum tacos.

 Dagurinn í dag var heldur betur öðruvísi en hinir. Um hádegisbil kom móðirin á heimilinu að mér og taldi upp einhverja hluti sem hún þyrfti að gera í dag. Spurði svo hvort ég vildi koma með henni og ég sagði bara já og amen. Það reyndist mjög viðeigandi því við fórum beint í messu með bróður hennar. Fyrsta kaþólska messan mín, presturinn skvetti á mig heilögu vatni og alles svo ég hlýt að vera góð næstu mánuðina. 

Eina myndin sem ég þorði að taka því Elena, mamman, gaf mér illt auga þegar ég tók upp símann.

 Eftir messuna hittum við fjölskyldu hennar og borðuðum með þeim. 7 af hennar 10 systkinum mættu með maka og börn svo við vorum vægast sagt mörg. Tilefnið var afmæli næst elsta bróðurins.

Þegar ég fékk loksins salat hér í Mexico var það löðrandi í kokteilsósu.

Gelatina. Ekki láta blekkjast, þetta bragðast eins og sápa.

 Það mætti segja að ég hafi komið með í staðinn fyrir Héctor og Lauru því þau voru á sjúkrahúsinu hjá pabba sínum sem er eitthvað veikur í hjartanu. Skil ekki ennþá hvað kom fyrir hann en Laura sýndi mér myndir af túbu sem liggur inní hann til að tappa af vökva. Ég held ég vilji ekki vita meira.
Eftir matinn fórum við öll heim til systur þeirra að borða afmælisköku og hafa gaman. 

Fallegur garður á leiðinni frá veitingastaðnum.

Afmæliskakan. Ekki eins djúsí og hún sýnist.

Afmælisfjör, endalaust spilað og sungið.

Elsti bróðirinn að syngja, aðeins of krúttlegt.

 Enn og aftur finnst mér ég ekki hafa sagt frá helmingnum sem ég hef upplifað á þessum tíma, en það er víst allt annað að upplifa en reyna að lýsa því fyrir öðrum. 
Ég vona að allir hafi það sem allra best heima á Íslandinu mínu. Munið að njóta augnabliksins og vera þakklát fyrir hvað við höfum það gott.
Það búa ekki allir svo vel að geta hent skeinipappírnum beint í klósettið :)


Sunday, January 19, 2014

Helgin í Oaxtepec, komuráðstefnan

Þetta hefur svo sannarlega verið viðburðarík og skemmtileg helgi. Algjör tilfinningarússíbani með blöndu af sárri heimþrá og einskærri hamingju, en allt í allt hef ég skemmt mér mjög vel og kynnst mikið af fólki.
Um helgina var semsagt komuráðstefna fyrir alla sjálfboðaliðana, líka þá mexicana sem eru að fara sem sjálfboðaliðar til annarra landa. Við erum sirka 50 manns með starfsfólki og gistum á nokkurs konar hóteli sem er eins og sumarbústaðahverfi. Ég deildi húsi með 5 stelpum og það var meira en nog pláss fyrir okkur allar.


Allar máltíðir snæddum við á veitingastað rétt hjá. Starfsfólkið þar stjanaði við okkur og maturinn var næstum alltaf étanlegur. Annars er mexikanskur matur bara mun bragðbetri en mig hefði grunað. Samt ekki þannig að mamma geti borðað hann, hann er aðeins of sterkur til þess. Kom mér á óvart hvað margir mexikanar segjast ekki vilja sterkan mat. Það fer í magann á þeim, segja þeir. Lol.

Hér er eldað. Fékk tvisvar kjúkling og engin salmonella 👍

Þetta er týpisk mexikönsk súpa. Pasta i tómatvatni.

Fullt af fólki að borða saman, gleði gleði :)

Á ráðstefnunni höfum við fengið mikið af nauðsynlegum upplýsingum um menninguna, verkefnin, hvernig á að ferðast um, hvað má og má ekki o.s.frv. Siijuve teymið, en það heita samtökin hér í Mexico, hefur skipulagt helgina mjög vel svo það er alltaf nóg að gera hjá okkur. Við nýliðarnir vorum látin mála á boli, að framan áttum við að mála okkur sjálf eins og við sjáum okkur núna, og að aftan það sem við búumst við að fá útúr þessari reynslu. Ég málaði sjálfa mig mjög litla framan á bolinn, því þannig líður mér núna. Pínulítil í risastórri borg.


En að aftan málaði ég mig stærri, og með meira fólk í kringum mig. Eftir einhvern tíma mun mér líða betur og ég verð öruggari í þessu skrýtna en spennandi landi.


Strákur frá Skotlandi hló að mér og sagði að það liti út eins og mínar væntingar til þessa 6 mánaða væru að eignast 6 litla mexikanska krakka.

Með þetta herlið í kringum mig þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur.


Í þessum skrifuðu orðum sit ég úti í sólinni, í burtu frá öllum hinum, að horfa á risastórt hvítt fiðrildi sem er að flögra í kringum mig. Það er svo mikið meira sem mig langar að segja frá, en ef ég hætti ekki núna og fer til baka munu þau sennilega skilja mig eftir. 

Æj nei annars, held eg fari bara í sund :) 

Wednesday, January 15, 2014

Lent í Mexico

Jæja loksins er ég komin eftir rúmlega sólarhrings ferðalag. Var sótt á flugvöllinn i Mexico City af sjálfboðaliðum fyrir samtökin sem eg mun vinna fyrir hér í Mexico. Mun gista hjá þeim fram á föstudag en þá förum við til Puebla þar sem komuráðstefnan fyrir sjálfboðaliðana verður haldin. Eftir hana fer ég svo þangað sem verkefnið mitt er og mun líklega búa þar. Fékk þær fréttir þegar ég kom að fjölskyldan sem ég átti að búa hjá væri ekki lengur tilbúin að taka á móti mér þar sem pabbinn hefur misst vinnuna og þau eru nú þegar með einn sjálfboðaliða á heimilinu. Hún er mikið veik og mamman er að missa sig úr áhyggjum. En það á víst að vera mjög fínt að búa í verkefninu, held ég muni deila íbúð með öðrum sjálfboðaliða. Ennþá allt mjög óljóst en vonandi skýrist þetta um helgina, þá segi ég betur frá :)

Chito, litla voffakrúttið sem ég bý hjá næstu tvo daga :D