Hlýt að vera að smitast af Mexikönunum sem eru aldrei á réttum tíma með eitt eða neitt. En hvað um það, betra er seint en aldrei. Hér kemur seinni parturinn af páskafríinu mínu sem mér finnst hafa verið fyrir óralöngu síðan. Fyrri parturinn endaði á því að ég var að skríða út úr Guatemala sem þýðir að hér hefst ævintýrið á ströndinni, nánar tiltekið á Playa del Carmen.
Þ.e.a.s. eftir 18klst ferðalag í þessari mjög svo óhuggulegu rútu þar sem ekki var hægt að loka gluggum né kveikja ljós þegar sólin settist. Hún fylltist af fólki á næstu stoppistöð. og fyrir aftan mig settist maður sem fannst voða gaman að dúndra með hnénu í sætisbakið mitt í hvert skipti sem ég dirfðist að leggja mig upp að því.
Eftir þessa 18 tíma hjá rútuferðum satans lentum við loksins í paradís. Fundum leiðina heim til Frank sem hýsti okkur í þrjár nætur, vorum ekki lengi að koma okkur allar fyrir í rúminu hans og steinsofna kl 7 um morguninn.
Hvíldumst sjúklega vel og vorum komnar út aftur á hádegi. Frank tók okkur með sér í skoðunarferð um bæinn og það var alveg eins og rútuferðir satans hefðu bara keyrt í gegnum eitthvað svarthol og yfir í annað land. Meirihluti fólksins voru túristar, þá aðallega Bandaríkjamenn, allir Mexikanarnir reyndu að tala við okkur á ensku og fólk var í alvörunni í formi, en ekki með tacobumbu eins og allir í höfuðborginni. Mér leið svo sannarlega vel því þangað vorum við komnar til að slappa af. Vildi óska að ég ætti mynd af viðbrögðunum mínum þegar ég sá ströndina í fyrsta skiptið.
Frank að leika sér í hvíta sandinum.
Daginn eftir fórum við til Tulum sem er aðeins sunnar og leigðum þar hjól, bjuggum til samlokur og skoðuðum rústir.
Þá var kominn tími til að tryggja okkur rútumiðana heim aftur. Við fórum á rútustöðina og komumst að því að það voru bara fjórir miðar eftir á þeim degi sem við höfðum hugsað okkur að fara heim. Auðvitað skellti ég þessu bara upp í kæruleysi og ákvað að vera eftir, enda ekki á hverjum degi sem maður getur stungið tásunum í Karíbahafið. Auk þess var flugmiðinn heim nokkrum dögum seinna jafnvel ódýrari en rútumiðinn og ekki erfitt að velja á milli, klukkustundar flugferð eða sólarhringur í rútu.
Við vinkonurnar ákváðum að eyða síðasta deginum á Playa del Carmen í skemmtigarði sem heitir Xcaret. Þangað fórum við snemma morguns og komum til baka seint um kvöldið. Gerðum og sáum fullt af skemmtilegu dóti.
Eftir langan dag fórum við og tókum við saman dótið okkar hjá Frank og héldum til Puerto Morelos. Þar voru hinar stelpurnar búnar að koma sér fyrir hjá Rasta sem hýsti okkur næstu daga. Vorum svo heppnar að fá að koma með honum í vinnuna, en hann vinnur í Selvática sem er adrenalín garður með fullt af extreme dóti. Gat þó ekki tekið mikið af myndum því síminn varð eftir í læstum skáp.
Næsti dagur var sá seinasti fyrir stelpurnar. Við fórum til Isla Mujeres sem er eyja rétt fyrir utan Cancún. Sannkölluð paradís, hvítari sandur en ég hef séð á ævinni og sjórinn alveg tær.
Gátum aðeins eytt mjög stuttum tíma á þessum fallega stað því stelpurnar þurftu að ná rútunni seinnipartinn. Ég kvaddi þær og hélt með dótið mitt til Cancún en þar gisti ég restina af tímanum hjá strákum sem unnu einnig í adrenalín garðinum.
Þá var þetta framlengda frí á enda og tími til að halda aftur til borgarinnar. Verð að segja að ég var ekki alveg tilbúin að yfirgefa ströndina þar sem borgin er eiginlega alveg að fara með mig. Hef komist að því að Íslendingurinn í mér á erfitt með að höndla mannfjöldann, erilinn og vegalengdirnar á milli staða til svona langs tíma. Sem betur fer er ekki mikið eftir.
Það stóð til að eftir ferðina myndi Laura finna fyrir mig annan stað til að búa á þar sem ég hef engan stað fyrir dótið mitt heima hjá henni en þar sem ekkert hefur gerst, og lítur ekki út fyrir að hún ætli að gera neitt í málunum, mun ég líklega búa hjá henni í ferðatöskunni minni það sem eftir er ferðarinnar. Ég sætti mig við það þar sem stutt er í vinnuna mína og aðeins um 8 vikur eftir af tímanum mínum hér í Mexico.
Einnig vegna þess að ég pantaði mér samstundis aðra ferð á ströndina, þá að sjálfsögðu með flugi. Þann 17. Júní verð ég komin aftur með tærnar á kaf í sandinn og buslandi í Karíbahafinu.
Nema í þetta skiptið gleymi ég ekki sólarvörninni.